top of page

HVAMMSVIRKJUN

Starfsmenn Völubergs hafa komið umtalsvert að vinnu við jarðgrunnsrannsóknir og hönnun fyrir Hvammsvirkjun. Þar má nefna eftirlit með rannsóknarborunun og könnunargryfjum, sprungurannsóknir við stöðvarhús og þrýstipípur, efnisleit, hönnunarforsendur og hönnun, BIM forsendur og kröfur, verklýsingar og verkteikningar, ráðgjöf og rýni vegna útboðshönnunar. Einnig mat á innrennsli vatns í jarðgöng og skurði með líkangerð í GeoStudio SEEP/W og ráðgjöf og rýni við líkangerð í RS2 til að meta stæðni bergs og jarðskjálftaáhrif á jarðgöng og frárennslisskurð. Auk þess gerð GIR skýrslu og ýmissa annarra jarðfræðiskýrsla fyrir framkvæmdir Hvammsvirkjunar.

Hvammsvirkjun jarðgrunnsrannsóknir jarðfræði

KÁRAHNJÚKAVIRKJUN / FLJÓTSDALSSTÖÐ

Jarðgrunnsrannsóknir, eftirlit og umsjón með framkvæmdum var stór hluti af vinnu starfsmanna Völubergs á undirbúnings- og byggingartíma Kárahnjúkavirkjunar, bæði hjá ráðgjafar- og eftirlitsaðilum og verktökum. Af rannsóknum má þar nefna umsjón og eftirlit með rannsóknarborunun, borkjarnalýsingar, lektarprófanir í borholum, cobraborun, eftirlit og lýsing jarðlaga í könnunargryfjum og jarðfræðiskýrslur.

Vinna við framkvæmdaeftirlit tilheyrði KSJV (Kárahnjúkar Supervision Joint Venture) og FSJV (Fljótsdalslínur Supervision Joint Venture). Þar ber að nefna jarðfræðikortlagningu, mat á styrkingarþörf og almenn eftirlitsstörf með jarðgangagerð á stöðvarhússvæðinu.  Einnig þátttaka í gerð tölvureiknilíkans (FEM model) yfir spennur og aflögun bergs í neðanjarðarhvelfingunum með aðstoð forritsins Phase2.  Jafnframt eftirlit með jarðvinnuframkvæmdum vegna bygginga þjónustubyggingar og tengivirkishúss Kárahnjúkavirkjunar en báðar þessar byggingar eru ofanjarðar. Eftirlit með undirbyggingu tveggja strengendabúnaðarvirkja og jarðvinnuhluta lagningar 132 kV háspennujarðstrengs línu FL2, lengd 7,5 km, 3 leiðarar og fjöldi þverana vega, áa (m.a. Jökulsár í Fljótsdal), o.fl. Eftirlit með lóðréttri borun og styrkingu Hólsufs sveifluganga og eftirlit með gerð frárennslisskurðar og snjóflóðavarnarfleygs. Auk þess umsjón með hluta af lokaskýrslum framkvæmdaeftirlits KSJV og FSJV.

Til viðbótar voru almenn eftirlitsstörf vegna ýmis konar jarðvinnu á framkvæmdasvæði stöðvarhúss virkjunarinnar, m.a. með grjótvarnargarði utan á dælustöð á áreyrum Jökulsár í Fljótsdal og eftirlit með lokafrágangi lóðar. Einnig vinna við leit að neysluvatni fyrir Fljótsdalsstöð og umsjón með borunum vegna þessa.

Fyrir verktaka á framkvæmdatíma ber annars vegar að nefna vinnu sem aðaljarðfræðingur og mælingamaður Fosskrafts við jarðgangagerð og hluta af neðanjarðarhvelfingum fyrir mannvirkin á svæði Fljótsdalsstöðvar. Hins vegar sem jarðverkfræðingur hjá Suðurverki með jarðtæknilega umsjón og ráðgjöf til verktaka vegna byggingar Desjarárstíflu og Sauðárdalsstíflu.  Þar var um að ræða ráðgjöf og umsjón með bergþéttingu með ídælingu sementsefju undir Desjarárstíflu og aðstoð við uppsetningu rannsóknarstofu til að sinna jarðefnaprófunum á fyllingarefni jarðefnastíflanna tveggja. Einnig umsjón með jarðefnaprófunum, bæði sem hluta af verkinu og innra eftirliti fyrir Suðurverk, og rekstri rannsóknarstofunnar.   

Eftir gagnsetningu Fljótsdalsstöðvar hafa sérfræðingar Völubergs sinnt bergfærslumælingum og ástandsskoðunum og veitt ráðgjöf um endurbætur. Þ.e.a.s. haft faglega ábyrgð á vöktun á bergfærslum vegna hárra bergspenna í neðanjarðarmannvirkjum Fljótsdalsstöðvar og séð um skoðanir þeirra, ásamt aðgöngum og stjórnhellum aðrennslisganga og stíflusvæðis, með tilliti til stæðni og ástands bergstyrkinga.

Kárahnjúkavirkjun

BÚRFELL II, VATNSAFLSVIRKJUN 100 MW

Sérfræðiráðgjöf, staða sérfræðings jarðvinnu og framkvæmdaeftirlit með allri jarðvinnu og jarðgangagerð voru hlutverk starfsmanna Völubergs. Þetta fól m.a. í sér jarðfræðikortlagningu og mat á styrkingarþörf í jarðgöngum, stöðvarhúsi og bergskeringum, landmælingar, reikninga og magnuppgjör, samskipti og formleg bréfaskrif vegna ýmissa mála og skýrslugerð (mánaðarskýrslur, vikuskýrslur, verkfundargerðir, lokaskýrslur). Einnig ástandsskoðanir og bergfærslumælingar með málbands- og stangarmælum, bæði á framkvæmdatíma og eftir gangsetningu virkjunarinnar.

Allir starfsmenn Völubergs komu að framkvæmdum við Búrfellsvirkjun II sem samanstendur af stöðvarhúsi og spennarými neðanjarðar, aðkomu- og frárennslisgöngum, lóðréttum kapal- og fallgöngum og aðrennslis- og frárennslisskurði.

Búrfellsvirkjun eftirlit bergfærslur

BÚÐARHÁLSVIRKJUN

Sérfræðingar Völubergs tóku þátt í jarðfræðirannsóknum, jarðgangahönnun og framkvæmdum fyrir Búðarhálsvirkjun. Þetta innifól m.a. umsjón og eftirlit með borverktaka, eftirlit og útreikninga í lektarprófunum, umsjón með grefti könnunargryfja og sýnatöku jarðvegs og bergs, framkvæmd prófana á bergstyrk og GPS - landmælingar vegna rannsókna. Einnig jarðsniðsgreiningu borhola og greiningu borkjarna, greiningu bergtæknilegra og jarðverkfræðilegra aðstæðna vegna jarðgangahönnunar og mat á styrkingarþörf og vatnsleka inn í jarðgöngin. Virkjunin samanstendur af stíflu með jökulruðningskjarna í farvegi Köldukvíslar, yfirfalli, botnrás, flóðvari, aðrennslisskurði, inntaki ganga, 4 km löngum jarðgöngum (140 m2),  jöfnunarþró, inntaki, stöðvarhúsi með tveimur 2x50 MW kaplanvélum, frárennslisskurði, vegagerð, brúargerð o.fl. 


Á framkvæmdatíma sinntu starfsmenn Völubergs annars vegar starfi sem aðaljarðfræðingur og tæknimaður hjá verktaka Búðarhálsvirkjunar, Ístak og hins vegar sérfræðiráðgjöf í bergtækni. Starf aðaljarðfræðings og tæknimanns hjá Ístak fól m.a. í sér kortlagningu á allri jarðfræði á verktíma, umsjón með öllu magnuppgjöri og annars sem snéri að gangagrefti verktaka og bergfærslumælingar í göngunum. Einnig var hann aðstoðarmaður framleiðslustjóra jarðganga, var afleysingaverkstjóri í jarðgangavinnu og sá um jarðefnarannsóknir varðandi stíflur og vegagerð og aðstoð við kröfugerðir á verktíma. Bergtækniráðgjöfin fól í sér mat á bergspennum, færslum og styrkingaþörf fyrir erfiðar jarðfræðiaðstæður í aðrennslisgöngum með tölulega reiknilíkansforritinu Phase2. 

TOSEN VATNSAFLSVIRKJANIR Í NOREGI, 130 GWh

Sérfræðingur Völubergs var framleiðslustjóri jarðganga og aðaljarðfræðingur hjá Ístak í vatnsaflsvirkjunarframkvæmdum í Tosbotn í Noregi, í samningi upp á ca. 125 milljónir NOK. Framkvæmdirnar fólu í sér 5 vatnsaflavirkjanir fyrir Helgelandkraft og jarðgangagerð í þeim öllum, þar af voru lóðrétt fallgöng í tveimur þeirra og stöðvarhús neðanjarðar í einni. Starfið fólst í umsjón með jarðgangagerð, ákvörðun bergstyrkinga í göngum og bergskeringum, rekstur verksamnings fyrir jarðgöng og samskipti við verkkaupa, kröfugerðir í jarðgangahluta og rekstur steypustöðvar fyrir framkvæmdirnar.

KARGI VATNSAFLSVIRKJUN Í TYRKLANDI, 102 MW

Starfsmaður Völubergs var jarðgangasérfræðingur í byggingastjórnar- og eftirlitsteymi Statkraft á framkvæmdartíma Kargi vatnsaflsvirkjunar í Tyrklandi á árunum 2011-2013.  Hann sinnti þar ráðgjöf og sá um að leiða eftirlitsteymi í jarðgangagerð og ákvörðun bergstyrkinga og var einnig með ábyrgð í grefti, styrkingum og fyllingum annarra mannvirkja.  


Áin Kizilirmak er virkjuð í Çorum héraði í N-Tyrklandi og framkvæmdasvæðið er innan „Northern Anatolian Fault System“ (NAFS), sem er helsta upptakasvæði jarðskjálfta í Tyrklandi. Kargi virkjun er 102 MW, orkuframleiðsla er um 467 GWh og helstu mannvirki eru eftirfarandi: Um 500 m löng jarðvegsstífla með þéttikjarna, 13,5 m há, með steyptu yfirfalli og botnrás.  Aðrennslisgöng eru 11,8 km löng og heilboruð (TBM) með 9,84 m þvermáli frá stöðvarhúsi en boruð og sprengd frá inntaki. Bergið var mjög leirríkt og lélegt á köflum og greftinum fylgdi mikil ídæling þenjanlegrar efnaefju. Jöfnunarþró grafin á yfirborði, um 775.000 m3, með 70 m lóðréttu röri neðst, Ø10m, sem grafið var í bæði lausu efni og bergi og steypt fóðring. Þróin var styrkt með sprautusteypu og ankerum fyrir laus jarðlög sem fest voru með ídælingu sementsefju. Fallhæð er um 75 m og stöðvarhús er búið 2 hverflum. Fjárfestingarrammi framkvæmdarinnar var um 40.000 MISK og virkjunin verður í eigu hins norska Statkraft til 49 ára.

VATNSFELLSSKURÐUR

Við endurbætur á Vatnsfellsskurði neðan við lokuvirki árið 2024 sáu starfsmenn Völubergs um framkvæmdaeftirlit og sinntu sérfræðiráðgjöf.

ÞÓRISÓSSTÍFLA

Við endurbætur á Þórisósstíflu á árunum 2022-2024 sáu sérfræðingar Völubergs um framkvæmdaeftirlit með grjótframleiðslu og grjótröðun.

SIGÖLDUVIRKJUN

Vegna fyrirhugaðrar stækkunar á Sigölduvirkjun sáu sérfræðingar Völubergs um skipulag, umsjón og eftirlit með jarðgrunnsrannsóknum við stöðvarhús og komu að ráðgjöf, hönnunarforsendum og hönnun. Verkþættir rannsókna voru m.a. borrannsóknir, kjarnalýsingar, lektarprófanir og athugunir, leit og túlkun á höggunarsprungum í berggrunni. Auk þess þátttaka í verkhönnunarskýrslu vegna stækkunar Sigölduvirkjunar, sem felur í sér viðbót fjórðu aflvélar er gefur aflaukningu stöðvarinnar úr 150 MW í 200 MW, stækkun stöðvarhúss og viðbótar þrýstipípu frá inntaki að stöðvarhúsi.

Völuberg

Bíldshöfði 16

110 Reykjavík

voluberg@voluberg.is

Kt:450624-1280

Atli Karl Ingimarsson                   

S:842 3092

Benedikt Óskar Steingrímsson

S:867 8175

Haraldur Hallsteinsson

S:842 3331

bottom of page